Magnús Árnason

Útför 22. janúar 1957

[...]

Magnús Árnason var fæddur að Hóli í Bolungarvík 14. ágúst 1885, sonur hjónanna Árna Magnúsar Árnasonar, staðarhaldara þar, og Hansínu Ásbjörnsdóttur er þar bjuggu um 30 ára skeið. Hann var einn af þriggja systkina hópi, Rannveigar, sem dó árið 1919, og Jóhanns Ásbjarnar, bankaritara í Reykjavík sem nú er einn eftir af systkinunum frá Hóli. Í vöggugjöf hlaut Magnús óvenju góðar og fjölhæfar gáfur þótt minna væri um tækifæri á þeim árum til að njóta þeirra og þroska þær en börn nútímans eiga við að búa. Hann ólst upp við störf, í sveit, á sjó og við smíðar, og var alls staðar liðtækur vel þar sem hann gekk að verki og meira að segja óvenju hagur í höndum. Hansína, móðir Magnúsar, hafði mikla og fagra söngrödd og hafði oft forsöng á hendi þegar kirkjulegar athafnir fóru fram í Bolungarvík. Frá henni hefur Magnús sennilega tekið þá hæfileika í arf. Hann var mjög söngelskur og nam um skeið orgelleik hjá Stefáni Ólafssyni á Ísafirði. Eignaðist hann orgel og hafði á heimili sínu um langt skeið. Einnig lék hann nokkuð á fiðlu og fleiri hljóðfæri auk þess sem hann hafði góða söngrödd og var víða með þar sem söngur var um hönd hafður á mannamótum.

Eftirlifandi eiginkonu sinni kvæntist Magnús norður í Bolungarvík og þar var fyrsta heimili þeirra. En skömmu síðar, eða árið 1913, fluttu þau hingað til Suðureyrar þar sem þau reistu húsið Aðalgötu 25 og hóf Magnús þar brauðgerð. Ekki mun það þó hafa verið gróðavænlegur atvinnuvegur - byggðarlagið ekki svo stórt og fjölmennt. En þá kom sér vel að heimilisfaðirinn kunni til margra verka enda varð að vinna sleitulaust til að framfleyta stóru og stækkandi heimili. Þessi ár reyndust mörgum erfið - heimsstyrjaldarárin fyrri og krepputíminn sem kom að þeim loknum. Og heimili Magnúsar var stórt. Alls eignuðust þau hjónin 10 börn og komust 8 þeirra til fullorðinsára. Það hefur ekki verið með öllu átakalaust að framfleyta slíku heimili, auk þess sem við heimili Magnúsar voru tengdir foreldrar hans, Árni Magnús Árnason, sem dó árið 1921, og Hansína Ásbjörnsdóttir, sem dó 1950. En ekki bar Magnús samt neinar áhyggjur utan á sér, ekkert vol eða víl, heldur gekk hann að störfum sínum léttur og glaður svo að þeir, sem með honum störfuðu urðu sjálfir léttari og hressari í anda.

Þegar fyrsta kaupfélagið var stofnað hér var Magnús kjörinn framkvæmdastjóri þess. Það var lítið félag sem átti við marga erfiðleika að stríða og starfaði ekki nema skamma hríð.

Eftir að rafmagn hafði verið lagt hér um kauptúnið var hörgull á mönnum sem kynnu að annast raflagnir og gera við rafmagnstæki er biluðu. Það starf tók Magnús að sér og annaðist með prýði um langt skeið ásamt ýmsum öðrum viðgerðum á margvíslegustu hlutum og smíði á ýmsu fyrir menn. En ég hygg að ekki hafi alltaf verið tekin sú greiðsla fyrir þau störf sem metin er fyrir þau nú. Á seinni árum hafði Magnús komið sér upp trésmíðaverkstæði og starf hans nær eingöngu bundið við smíðar.

Fyrir nær 10 árum fluttu þau hjónin í nýja íbúð sem þau höfðu komið sér upp hér á Suðureyri. Þar átti að vera athvarf þeirra og griðastaður á efri árum. Börnin voru vaxin upp og komin að heiman og mestu annir starfsdagsins að baki. Hinum sjötíu eða áttatíu árum mannsævinnar hallaði óðum að kvöldi. Þau höfðu borið margt í skauti sínu, margar glaðar og bjartar stundir en líka stundir áreynslu og sorga. Árið 1941 urðu þau hjón fyrir þeirri þungbæru reynslu að uppkominn sonur þeirra, Halldór Georg, fórst með línuveiðaranum Pétursey, tápmikill efnismaður. En þrek og festa láta ekki hin þungu spor buga sig og Magnús Árnason gekk óbugaður gegnum hverja raun ævinnar. Hann átti þann innri þrótt sem ekki aðeins hélt honum sjálfum uppi heldur varð líka léttir og blessun þeim sem með honum voru og störfuðu. Og núna í haust, þegar heilsa og þrek tók að þrjóta, hefur hann vafalítið verið farið að renna grun í hvert stefna myndi en öllu var tekið með sama æðruleysinu, sama þrekinu, sama létta svipnum og alla tíð einkenndu Magnús Árnason.

Svo vildi til að Magnús var einn meðal hinna fyrstu sem ég kynntist hér í þessu prestakalli er ég fluttist hingað fyrir nær 15 árum. Hann hafði verið til kvaddur af prófasti að standa að úttektargjörð á prestsetrinu. Þann dag man ég enn greinilega. Ég minnist þess hvernig hann athugaði allt af glöggskyggni, hvernig gamanyrðin flugu, hvernig allt var létt og ánægjulegt í kringum hann. Og þannig var hann alltaf, hvort heldur maður mætti honum á götunni eða sæti með honum í góðra vina hópi. Eru ekki þetta einmitt eiginleikar þess hjarta sem kann að telja daga sína: Að taka hinu þyngsta böli með þreki og æðruleysi og hinum góðu stundum með brosi og gleði?

Og nú er Magnús Árnason horfinn. Byggðarlagið okkar stendur fátækara eftir við brottför hans. Við kveðjum hann með söknuði og með þökk fyrir samfylgdina. Og þá er það fyrst og fremst eiginkonan sem kveður lífsförunautinn eftir langa sambúð og skuggalausa með þökk fyrir allt. Og börnin, bæði þau sem hér eru og dóttirin sem ekki komst til þessarar kveðjustundar, kveðja kæran föður og minnast með þakklæti alls þess er hann hefur fyrir þau gert frá fyrstu bernsku. Og tengdabörnin kveðja með þökkum fyrir alla hjálpsemina og hugulsemina sem hann sýndi ávallt í þeirra garð, eins og þau væru hans eigin börn.
[...]