Í dag 16. júní, er fæðingardagur föður míns, Njáls Jónssonar (f.1907 - d.1961). Ég vil minnast hans með nokkrum orðum og minningabrotum. | ![]() |
Hann var fæddur í Súðavík, sonur hjónanna Margrétar Bjarnadóttur og Jóns Jónssonar, athafnamanns. Jón keypti hálfa jörðina Súðavík, árið 1897 og hóf búskap og útgerð jöfnum höndum, var formaður á bátum sínum til 1916 og rak einnig verslun á staðnum. Heimili Margrétar og Jóns var annálað fyrir gestrisni og myndarskap. Margrét amma mín var dugnaðarforkur sem stjórnaði heimili sínu af festu og rausnarskap. Faðir minn, Njáll ólst upp í stórum systkinahópi með sjö systrum og einum bróður – kært var með þeim systkinum. Jón og Margrét misstu einnig sjö börn á unga aldri.
Þetta er bakgrunnur Njáls og hann hneigðist snemma til búskapar. Hann var búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri og vann við fjárbú föður síns, og vann við miklar jarðarbætur og uppbyggingu á húsum og bústofni. Njáll eignaðist einn son fyrir hjónaband, Aðalstein Haraldsson. |
![]() |
Hann kynntist móður minni Ásdísi Friðbertsdóttur er hún kom til starfa hjá foreldrum hans í Súðavík, hún starfaði bæði við verslunarstörf og á heimilinu. Foreldrar mínir giftust vorið 1939 og hófu búskap í Minni-Hattardal í botni Álftafjarðar. Þá var sjóleiðin eina færa leiðin til að komast inn í Minni-Hattardal og einangrun mikil. |
![]() |
Vorið 1941 fluttu afi minn og amma til Reykjavíkur. Þá fóru þau sjóleiðina inn í botn Álftafjarðar til að kveðja soninn Njál, Ásdísi og nokkurra mánaða barnabarn, Friðbert Pál. Móðir mín Ásdís undi sér ekki í þeirri einangrun sem fylgdi búskapnum í Minni-Hattardal. Hún sagði alla tíð að hún hefði ekki getað hugsað til þess að þurfa að senda börnin sín til vandalausra þegar skólaganga hæfist. Foreldrar mínir tóku þá ákvörðun að bregða búi og flytja til Suðureyrar vorið 1942, í heimabæ móður minnar. Þau festu kaup á efri hæðinni í húsinu við Eyrargötu 11. Þar fæddust fjögur börn þeirra, Margrét, Harpa, Jón Víðir og Birkir. Vorið 1955 flutti fjölskyldan í hús móðurömmu minnar, Pálínu Sveinbjörnsdóttur, Aðalgötu 21, og bjó hún með okkur þar til hún lést árið 1960. Þannig var nærumhverfi Njáls á Suðureyri. |
![]() |
Segja má að faðir minn hafi tekið bústofn og búskapinn með sér að hluta til Suðureyrar. Hann var allan sinn búskap með kindur á Suðureyri og hafði mikið yndi af skepnunum sínum og sinnti þeim af kostgæfni. Sumarfríin fóru í heyskap inni á Botnsdal og á eyrinni. Ég minnist þess að farið var inn í Álftafjörð á hrútasýningar – með sýnishorn af eigin gripum, sýna sig og sjá aðra og gleðjast. Við Tóta vinkona, fengum stundum að fara með – það var sport í þá daga. Þá var stundum sungið hátt og hlegið dátt, á ferðalagi um fjörð og fjöll, sérstaklega þegar Sturla Ólafs var með í för og keyrði. Þá var sungið: Blessuð sértu sveitin mín – sumar vetur ár og daga. Þarna var bóndinn Njáll í essinu sínu og á heimaslóðum. |
![]() |
Njáll stundaði alla almenna verkamannavinnu á Suðureyri. Á sumrin meðal annars við handfæraveiðar og beitningu á vetrum. Hann gróf upp götur þorpsins með öðrum í akkorði, skurði fyrir nýjar lagnir og var einnig í vegavinnu - svo eitthvað sé nefnt. Hann var hörkuduglegur til allrar vinnu, gat verið gamansamur, hafði húmor og hnyttinn í orðum. Einnig skapmikill og fastur fyrir. Í þá daga þurfti fólk að vinna hörðum höndum – og ljóst að mikið viðbótarálag fylgdi því að sinna fénu á vetrum, í hádegi og eftir langan vinnudag. Hann var stoltur af sínum bústofni og ófáar ferðir voru farnar þess vegna og fyrir þá hugsjón. Lengst af var á brattann að sækja þar sem fjárhúsin stóðu upp undir hjöllum – þar standa minjar eftir um búskapinn - steyptur veggur af súrheystóft. Síðar flutti hann kindurnar í fjárhús nær heimilinu, m.a. gróf hann vatnslögn gegnum garðinn út í fjárhúsin. Þá vatnslögn nýtti móðir mín Ásdís síðar í gosbrunn í garðinum. Hún stækkaði garðinn eftir að bóndi hennar féll frá, bústofninn horfinn og fjárhúsin rifin. Njáll var mikill hagleiksmaður. Hann gerði fjölda líkana af bátum sem voru listasmíð. Hann nostraði við bátasmíðina, verkfærið var hnífur, og unnið úr tré. Allt það smáa var unnið úr ýsubeini. Hann tálgaði einnig fugla og dýr, allt gert af hagleik og mikilli natni. |
![]() |
Árið 1961 átti faðir minn við veikindi að stríða í nokkra mánuði og var heima og frá vinnu. Síðan fór hann með strandferðaskipinu suður til lækninga og í aðgerð - hann lést fáeinum dögum eftir þá aðgerð. Í ár eru 60 ár liðin síðan hann lést – langt um aldur fram. Minningarnar lifa. |
Harpa Njáls.