Útför Sigríðar Jónsdóttur (Siggu ljósu)
25. september 1970

Opinberunarbókin ii. 19 a: "Ég þekki verkin þín og kærleikann og trúna og þjónustuna og þolinmæði þína."

Þessi fögru ummæli flytur höfundur Opinberunarbókarinnar sem guðlegt ávarp til safnaðarins í Þýatríu og er auðsætt að hér er mikil og óvenjuleg viðurkenning á ferðinni. Svo virðist sem í þessu samfélagi hafi hinar kristilegu höfuðdyggðir ekki aðeins verið hylltar í orði, heldur einnig í reynd svo að þarna hafi mannlífið í sannleika verið fagurt og gott. Þarna var kærleikur, trú, þjónusta og þolgæði að verki, og hefur sýnilega verið starfað í anda þessara orða Krists: "Það, sem þér hafið gert einum þessara minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér."

Síðan þetta var ritað hafa hnigið í aldanna djúp full nítján hundruð ár. Margar kynslóðir hafa verið bornar í þennan heim. Þær hafa háð sitt stríð, ýmist í sæld eða þraut, eins og mannlegt hlutskipti vill löngum verða og að lokum gengið sína götu til grafar, eins og hverri jarðneskri veru er áskapað.

En þess megum við líka vera viss að í hverri kynslóð, sem nafn Krists hefur síðan verið boðað - já, og í hverju byggðarlagi hverrar kynslóðar - hafa alltaf fundist einhverjir, fleiri eða færri, sem réttilega máttu njóta sömu viöurkenningarorðanna. Og það er óhætt að bæta því við að oft voru þetta börn alþýðunnar, þau sem ekki sátu í hinum hærri eða virðingarmeiri sætum.

Og hin góðu verk þjónustunnar, hjálpseminnar og kærleikans hafa langoftast verið unnin svo að lítið bar á, í algerri kyrrþey, laus við allt tildur og auglýsingu. Hægri höndin hefur ekki vitað hvað sú vinstri gerði, svo að notuð séu orð Jesú sem að þessu atriði lúta. "Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp... leitar ekki síns eigin," segir Páll postuli í hinum máttuga kærleiksóði sínum í fyrra Korintubréfinu.

Og það er líka víst að þar sem starf kærleiksþjónustunnar er innt af hendi, þar er guðsríki boðað á þann hátt að allir skilja. Norska stórskáldið Björnstjerne Björnson segir í einni af skáldsögum sínum: "Þar sem góðir menn fara, þar eru Guðs vegir." Og það er án efa orð að sönnu.

Hlutverki kristinnar kirkju hefur verið lýst svo í íslensku ljóði að hún eigi að ná til allra lýða sem útrétt Drottins hönd. Og það eru áreiðanlega fleiri en klerkar og kennimenn sem gerast tæki í þeirri máttugu hendi. Hver sá sem miðlar öðrum af hlýjum huga þegar erfiðleikar eða skuggar steðja að eða mannleg þörf kallar með einhverjum hætti eftir aðstoð - já, hver sá flytur í rauninni geisla guðsríkisins með sér.

Ég sagðist áðan vera þess fullviss að hver kynslóð hins kristna tímabils hefði átt sér í hverju byggðarlagi færri eða fleiri slíka fulltrúa kristinna lífsviðhorfa. Og það mun vera reynsla okkar allra hér sem til fullorðinsára erum komin að hvar sem leiðirnar hafa legið höfum við átt því láni að fagna að kynnast einhverjum slíkum.

Og sannarlega mættum við biðja þess að hverri kynslóð á komandi tímum mætti auðnast að eignast sífellt fleiri og fleiri þá sem starfa í trú og kærleika, þjónustu og þolgæði - því að sama skapi og þeim fjölgaði myndi birta yfir þessum dauðans skuggadal eins og jörðin okkar hefur stundum verið kölluð og guðsríkið þokast feti nær fullnaðarsigri sínum meðal mannanna.

Þau voru fögur viðurkenningarorðin sem söfnuðurinn í Þýatíru fékk. Og þau orð leituðu hvað eftir annað fram í huga minn þegar ég fór að renna huganum yfir lífsferil Sigríðar Jónsdóttur og nálega þriggja áratuga kynni mín af henni. Í dag er hin mæta kona kvödd með hlýjum þakkarkenndum og söknuði af öllum þeim sem einhver kynni höfðu af henni. Við viljum nú um örstutta stund staldra við nokkra áfanga í ævi hinnar látnu sæmdarkonu.

Á stæði gamla bæjarins á Stað í Grunnavík, ásamt Aðalheiði Snorradóttur sumarið 1951.

Sigríður Jónsdóttir var fædd að Stað í Grunnavík 7. október 1889 og vantaði því ekki nema fáa daga upp á 81. aldursárið þegar andlát hennar bar að höndum fyrir einni viku. Foreldrar Sigríðar voru þau Jón Sigurðsson og Jónína Þóra Jónsdóttir er bjuggu á prestssetrinu á Stað ásamt Pétri Maack presti þar. Var ein af dætrum prestsins, María, fædd í sama mánuði og Sigríður og mjög náin vináttutengsl þeirra stallsystranna á milli allt frá fyrstu bernsku til síðustu stundar. Alls urðu þau systkinin, börn Jóns og Jónínu, níu að tölu en af þeim komust aðeins fjögur til fullorðinsára og var Sigríður yngst þeirra. Hin voru Kristján, Ragnheiður og Rannveig.

Lítið hafði Sigríður af föður sínum að segja því að þegar hún var um þriggja ára aldur drukknaði hann á Ísafjarðardjúpi ásamt fleiri mönnum og var presturinn frá Stað í Grunnavík þar á meðal. Það hefur því án efa reynt nokkuð á ekkjuna að sjá fyrir hópnum sínum. En um þetta leyti fluttist hún frá Stað og að Sútarabúðum í Grunnavík og þar ólst Sigríður upp fram á æskuárin. Hefur hún án efa snemma lært að taka hendi til starfs og þjónustu eins og henni var alla tíð lagið síðan.

Ung að aldri yfirgaf svo Sigríður æskubyggðina og hélt til Reykjavíkur til að vinna þar fyrir sér. Ekki var þó Grunnavík henni gleymd þó að lögheimili ætti hún þar ekki framar. Bernskuslóðirnar voru henni alla tíð kærar og þær æskuvinkonurnar hafa þar átt margar samverustundir í sólaryl og sumardýrð allt fram á yfirstandandi ár. Í Reykjavík vann Sigríður einkum á sjúkrahúsum, bæði á Landakoti og á Farsóttarhúsinu, þar sem María vinkona hennar var orðin yfirhjúkrunarkona. En á þriðja áratug aldarinnar tók hún sig til og nam ljósmóðurfræði og strax að loknu námi 1929 fluttist hún hingað til Súgandafjarðar og tók við ljósmóðurstörfum umdæmisins. Þeim störfum gegndi hún nokkuð á fjórða tug ára. Varla munu nema þrjú-fjögur ár síðan hún sat síðast yfir sængurkonu, þó að hún hefði látið af hinu opinbera starfi nokkru fyrr.

Sigríður með nýbura í fanginu 2. apríl 1954. Sigrún, Sigurður og Pálmi Jóhannesbörn.

Eitt síðasta barnið sem Sigríður tók á móti, Kristín Emilsdóttir, 16. janúar 1966.

Það mun vera einróma dómur allra sem þekkja til þessara starfa Sigríðar að með sérstakri prýði hafi þau verið rækt, með alúð, hlýju og nærgætni við skjólstæðingana, með þreki og dugnaði í ferðum sem stundum voru farnar um erfiðar leiðir og óhæg veðurskilyrði og stundum við erfiðar aðstæður á þeim heimilum sem hún var kvödd til starfa á. En ekki var kvartað og kveinað heldur gert það besta sem unnt var hverju sinni og allt farnaðist vel. Starf hennar var farsælt. Það hvíldi blessun yfir því.

Með Ásgeiri Jónssyni eiginmanni sínum við hús þeirra hjóna á sjötugsafmæli hans, 16. ágúst 1946.

Hinn 20. nóvember 1932 giftist Sigríður Ásgeiri Jónssyni vélstjóra sem flutt hafði hingað til fjarðarins frá Ísafirði skömmu áður, ekkjumaður með nokkur börn. Aldarfjórðungs sambúð þeirra var hlý og góð og stjúpbörnum sínum reyndist hún sem móðir. Og ég veit að það varð tómlegt hjá Sigríði þegar Ásgeir lést fyrir fullum 12 árum, í ársbyrjun 1958. En ein bjó hún áfram í litla húsinu þeirra við Aðalgötu 27 og þar var hún stödd þegar síðast knúði dyra sá gestur sem enginn kemst hjá að taka á móti.

Sigríður er horfin jarðneskum sjónum okkar en minningin um hana lifir, vafin birtu, í hugum þeirra sem kynntust henni. Sjálfur á ég og fjölskylda mín svo fjölmargar minningar um hugulsemi hennar, hjálpfýsi og rausn að of langt yrði upp að telja enda myndi henni sjálfri ekkert fjær skapi en að láta tíunda þá góðu hluti sem hún bar fram úr sjóði hjarta síns. Það var sama hvort það var einhver einstæðingur sem kenndi sjúkleika og þurfti aðhlynningar við - heimili með erfiðar kringumstæður á einhvern hátt - hjálp við hálfhungurmorða börn suður í Biafra - eða í einu orði sagt: Mannlega erfiðleika og neyð skynjaði hún sem kall til sín og svaraði því kalli með heilum huga. Við kveðjum öll með þökk og trega hina horfnu sæmdarkonu.

Við þessa kveðjuathöfn hafa ýmsir ættingjar og vinir óskað þess að þakkir frá sér yrðu fluttar sérstaklega. Systurdóttirin, Jónína Guðbjartsdóttir, og fjölskylda hennar á Ísafirði minnast með þökkum hinnar traustu vináttu og nána sambands um undanfarin ár. Bróðursonurinn, Ólafur Kristjánsson í Reykjavík sem vegna lasleika var hindraður frá því að koma til þessa samfundar, biður að flytja sínar þakkir og fjölskyldunnar fyrir allt hið marga góða á liðnum tímum. Sigríður Steinsdóttir minnist í hlýju og þökk alls þess sem hún hefur góðs notið af kynnum sínum af Sigríði. [handskrifað í ræðuna: Guðný Björnsd. og fjölsk., Sævar Guðl. Gunnhildur]

Nágranninn, Alexander Jóhannsson, þakkar nábýlið um margra ára skeið og kvenfélagið Ársól þakkar traust félagsstarf og mikla fórnfýsi í starfi á liðnum árum. Fleiri nöfn einstaklinga og stofnana er óþarft að telja. En við vitum að sama þakklætið og hlýjan fylgir Sigríði við hin jarðnesku leiðarlok frá hverjum þeim sem kynntist henni, stjúpbörnunum og þeirra fjölskyldum - já, samferðamönnum öllum, eldri og yngri. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Sigríður var alltaf í uppáhaldi hjá börnunum. Hjá henni standa Sigurður Jóhannesson og Valdimar Jón Halldórsson árið 1961 eða 1962.

Straumur tímans fer hratt. Breytingarnar raðast hver að annarri og það svo ört að stundum áttum við okkur alls ekki á þeim. Ég renndi um daginn augum yfir nöfnin í manntali Suðureyrarhrepps eins og það var er ég flutti hingað fyrir 29 árum tæpum. Af þeim 432 íbúum, sem þá voru hér, eru nú nálega 300 horfnir af okkar slóðum, margir fluttir í önnur byggðarlög en líka stór hópur sem er horfinn af sviði hins jarðneska lífs. Og í hvert sinn er sá hópur stækkar er eins og manni þyngi fyrir hjarta. En það stöðvar enginn tímans þunga nið. Þessi örlög eru búin öllu holdi, eða eins og hinn forni norræni höfundur komst að orði:

Deyr fé
deyja frændur
deyr sjálfur ið sama.
En ég veit einn
að aldrei deyr
dómur um dauðan hvern.

Og það er líka kenning kristinnar trúar að við mennirnir séum stöðugt með hugsun okkar, orðum og atferli að fella úrskurð um okkur sjálfa og það sé einmitt sá hlutur sem mestu varðar í lífinu að úrskurðurinn sá verði góður. Því að sá dómur, sem við fellum um okkur sjálf, verður farareyririnn til heimkynnanna handan við hafið mikla.

Þegar í þá för er farið eru haldlitlir háir titlar, embættisframi eða úttroðnar pyngjur því að þá verður aðeins spurt: Hvað vannstu Drottins veröld til þarfa? Og það vitum við áreiðanlega öll að farareyrir Sigríðar Jónsdóttur er góður. Myndi henni ekki einmitt þar vera heilsað með því drottinlega orði sem gert var að inngangi þessara fátæklegu hugleiðinga: "Ég þekki verkin þín og kærleikann og trúna og þjónustuna og þolinmæði þína"?

Guð blessi minningu þessa barns síns meðal okkar og auðgi okkur að trú, von og kærleika svo að við öll verðum eitt í honum. Fyrir Jesúm Krist.

Amen.